Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lögreglumaður lýgur

Þessi frétt er mjög villandi.  Lögreglumaðurinn fer með rangt mál þegar hann segir að fólk hafi helst verið að gagnrýna þessi ummæli:

"Fólk ætti kannski að líta oftar í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér" 

Rétt er að það voru þessi ummæli sem fólk var að gagnrýna:

"Oftar en ekki eru þessi mál tengd mikilli áfengisnotkun og ekki á ábyrgð neins nema viðkomandi sem er útsettur fyrir þessum vandræðum.  Það er erfitt hvað það er algengt að fólk bendir alltaf á einhverja aðra og reynir að koma ábyrgðinni yfir á þá.  Fólk ætti kannski að líta oftar í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfum sér"

Það er eingöngu treggáfað fólk (blaðamaður Morgunblaðsins?) sem sér ekki að það er ekki hægt að túlka þessi orð á annan hátt en þann að oftar en ekki séu þessi brot algerlega á ábyrgð brotaþolans og þar með að brotamaðurinn beri enga ábyrgð!

Er maður sem kemur með svona fullyrðingar hæfur til að sinna löggæslu?

Með svipaðri röksemdafærslu mætti segja að maður sem ekki læsir húsi sínu og brotist er inní það beri fulla ábyrgð á innbrotinu en innbrotsþjófurinn enga.

Lögreglumaðurinn hefur ekki mótmælt því að rétt sé haft eftir honum í DV.  Hann er því algerlega tvísaga ef hann segir núna:

"Manneskja sem er t.d. ofurölvi ber ekki neina ábyrgð á framkvæmd brotsins - nauðgun eða misbeitingu"

Í þessari "frétt" er lögreglumaðurinn að gera aumkunarverða tilraun til að snúa sig út úr vandræðum sínum með því að afneita því sem hann sagði - en neitar því samt ekki að hafa sagt það.

Menn eiga að bera ábyrgð á orðum sínum - sérstaklega lögreglumenn.

Og svo ættu blaðamenn mbl að fara að vanda vinnubrögð sín meira - í þessari "frétt" lætur blaðamaðurinn viðmælandann greinilega afvegaleiða sig og útkoman er þannig að lesendur eru fjær sannleikanum í málinu ef þeir trúa henni.


mbl.is „Brotaþoli getur aldrei borið ábyrgð á ofbeldisverknaði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Global governance today

Hér má sjá ræðu sem Trichet hélt í apríl hjá Council of Foreign Relations um kreppuna og hvernig hann telur að eigi að bregðast við henni.  http://www.ecb.int/press/key/date/2010/html/sp100426.en.html


mbl.is Ein versta fjármálakreppa í heila öld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smjörklípur

Það skín út úr bréfi Davíðs Oddssonar að hann virðist algjörlega laus við sjálfsgagnrýni, eins og við vissum reyndar fyrir.  Hann á að baki mörg mistök og klúður og ætti að vita það en vill ekki eða kann ekki að líta í eigin barm.  Hann vill ekki eða getur ekki skilið að honum er ekki treyst lengur og að starfskrafta hans er ekki lengur óskað í SÍ.  Því beitir hann í þessu bréfi gamla trikkinu sínu að sletta smjörklípum allt í kringum sig.  Allt er einhverjum öðrum að kenna og hann er bara saklaus blórabögull.  Maður sem á stóran þátt í að valda þjóð sinni stórkostlegum skaða en firrir sig síðan algjörlega ábyrgð er ekki bara vanhæfur í þetta embætti heldur beinlínis hættulegur þjóðinni. 


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjar eru hinar kröfurnar?

Eigum við að fá að heyra um samkomulagið við IMF í smáskömmtum eftir að búið er hrinda þeim í framkvæmd?  Eru IMF með fleiri fáránlegar kröfur?  Þetta er algjör bilun!  Ríkisstjórnin og seðlabankinn eiga að upplýsa almenning um hvað felst í þessu samkomulagi undir eins þannig að hægt sé að ræða það víðar í samfélaginu og komast að skynsamlegri niðurstöðu um það hvort skilyrðin eru aðgengileg og hvort það er yfirleitt eitthvað vit í þeim.  Það hefur margoft sýnt sig að þær kröfur sem IMF setur þeim sem fá lán úr sjóðnum eru stórskaðlegar! Samt heldur hann áfram á sömu braut!  Og núna líka þegar ljóst er orðið að hugmyndafræðin sem hann byggir þessar kröfur á gengur ekki upp!  Hvað gengur mönnum til??  Leyndin sem þessar aðgerðir eru hjúpaðar veit ekki á gott.  Er kannski ætlun IMF að setja íslenska hagkerfið algerlega á hliðina, valda fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga til þess að undirbúa jarðveginn fyrir að erlend stórfyrirtæki og bankar taki yfir okkar fyrirtæki, okkar banka og okkar auðlindir.  Vilja þeir hneppa almenning á Íslandi í óleysanlega skuldafjötra þannig að hann eigi sér ekki viðreisnar von?  Þetta hljómar ótrúlega en við sjáum hvernig þróunin í heiminum hefur verið undanfarna áratugi.  Auðlindir, fyrirtæki og stofnanir "vanþróaðra" ríkja hafa í stórum stíl lent í eigu alþjóðafyrirtækja eftir inngrip IMF og afskipti Alþjóðabankans.  Það hefur síðan haft í för með sér aukna fátækt, eymd og vinnuþrælkun.  Eru slík örlög framtíð Íslensku þjóðarinnar???         
mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt fólk

Ég held að íslenska þjóðin muni í framtíðinni gera miklu sterkari kröfu um heiðarleika hjá stjórnmálamönnum og að þeir séu að sækjast eftir völdum til að þjóna íbúum þessa lands en ekki vegna persónulegra hagsmuna, valdafíknar eða athyglissýki.  Núverandi ráðamenn hafa flestir staðið í vegi fyrir lagasetningum sem miða að því að auka gegnsæi í pólitíkinni t.d. með því að skylda þingmenn til að opinbera eignir sínar í fyrirtækjum og flokka til að opinbera hvaðan framlög til þeirra koma.  Það er því augljóslega þörf á því að fá nýtt fólk til valda og vonandi eigum við eitthvað af heiðarlegu og hæfu fólki sem er tilbúið að taka að sér stjórn þjóðarskútunnar.

Kommúnistar?

Ein helsta kennisetning frjálshyggjukapítalismans er að ríkið eigi að hafa sem minnst afskipti af atvinnulífinu, þar eiga lögmál markaðarins að sjá um að fyrirtækin séu vel rekin og selji vöru eða veiti þjónustu sem fólk þarf á að halda.  Eðlilegur hluti þessa fyrirkomulags er að þau fyrirtæki sem ekki uppfylla þessar kröfur verði gjaldþrota.  Hörðustu stuðningsmenn þessa kerfis hafa verið við völd í Bandaríkjunum og Íslandi töluvert lengi og reynt að minnka hlutverk ríkisins í samfélaginu eftir fremsta megni.  En nú bregður svo við að þeir eru fyrstir til að bregða á það ráð að þjóðnýta ákveðin fyrirtæki þegar þau standa frammi fyrir gjaldþroti!  Kannski er það hið eina rétta í stöðunni en það gjaldfellir líka kenningar þeirra því þessar aðgerðir eru í anda erkióvinarins - kommúnisma!  Eða er það kannski þannig að bankastarfsemi sé annars eðlis en aðrar atvinnugreinar og því eigi að gilda um hana aðrar leikreglur?  Ef það er málið þá skulum við bara fagna því að íslensku bankarnir hafi verið þjóðnýttir.  Við skulum bara hafa þá áfram í eigu ríkisins (þjóðarinnar) og fá hæft fólk til að stjórna þeim.  Jarðbundið fólk sem ekki er haldið gróða- eða áhættufíkn.  Skynsamt fólk sem ekki er bundið ákveðnum flokkum eða hugmyndafræði og hefur hag almennings að leiðarljósi. 

 


mbl.is Hrun á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankastjórinn

Ég tel að Davíð Oddsson beri mesta ábyrgð á þeirri erfiðu stöðu sem íslenska þjóðin er komin í.  Hann átti stærstan þátt í að skapa aðstæður sem leyfðu siðblindum gróðapungum að blómstra – á kostnað þjóðarinnar eins og nú er að koma í ljós.  Hann kennir síðan öðrum um ófarirnar, kallar þá brennuvarga og óreiðumenn, en sjálfan sig – höfuðpaurinn í ruglinu - kallar hann slökkviliðsmann og vill að við lítum á sig sem góða gæjann.  Maðurinn lifir greinilega í algerri sjálfsblekkingu og er greinilega alveg óhæfur til að fara með nokkur völd.  Segjum honum upp sem fyrst áður en hann nær að valda þjóðinni enn meiri skaða með bulli sínu og trú á hugmyndafræði og stjórnunaraðferðir sem ganga ekki upp.


mbl.is Talar ekki um Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ættum við að forðast?

Við erum að missa traust margra vinaþjóða okkar.  Það er auðvitað gríðarlega slæmt og við verðum að gæta okkar að gera ekki ástandið stöðugt verra með vitlausum ákvörðunum og ákveðna hluti verðum við að reyna að forðast.  Það verður að forðast í lengstu lög að þiggja hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum því þar með myndi hann taka tímabundið yfir stjórn peningamála.  Sjóðurinn starfar í anda frjálshyggjukapítalisma og myndi væntanlega gera kröfur um ákveðnar breytingar, eins og að við einkavæðum meira og opnum hagkerfið enn frekar fyrir erlendum auðhringjum.  Við verðum að forðast að grípa til frekari einkavæðingar eða einkarekstur og það á ekki að hvetja til þess að erlend fjárfesting stóraukist á Íslandi.  Ef fjárfestingar Íslendinga í útlöndum voru “útrás” hljóta fjárfestingar útlendinga á Íslandi að kallast “innrás”.  Ef íslenska útrásin snýst upp í innrás (dæmi: íslensku bankarnir hverfa inn í erlenda stórbanka, álfyrirtæki eignast íslensk orkufyrirtæki eða sjávarútvegsfyrirtæki komast í eigu erlendra stórfyrirtækja) förum við úr öskunni í eldinn og í versta falli yrði sjálfstæði þjóðarinnar og lýðræði lítils virði ásamt því að lífskjörum okkar hraka verulega.

 


mbl.is Finnar versla ekki með krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er hægt að gera?

Kapítalisminn er að hrynja.  Íslenska þjóðin rambar á barmi gjaldþrots.  Hvernig eigum við að bregðast við?  Vandinn er hrikalega stór og róttækra aðgerða er þörf. 

Skammtímaviðbrögð (nokkrar hugmyndir): Auka þorskkvóta verulega og leitast við að nýta allan fisk sem veiðist.  Lækka stýrivexti stórlega, jafnvel niður í núll (eftir hverju er seðlabandinn eiginlega að bíða! Það er með ólíkindum að þeir hafi ekkert gert í þessu ennþá).  Segja okkur úr NATO og hverfa frá öllum skuldbindingum okkar við það bandalag. Askrifa varnarmálastofnun og stöðva öll útgjöld til þess háttar starfsemi.  Búa til einn ríkisrekinn banka úr leifunum af hinum gömlu.  Ríkið ætti að styðja við útflutningsgreinar og gera ráðstafanir til að halda uppi atvinnustigi.  Athuga ætti að þjóðnýta olíufélögin. 

Það ætti þó að varast að halda áfram stóriðjuframkvæmdum fyrir álframleiðslu, slíkt mun aðeins gera illt verra.  Ég held að það hjálpi heldur ekkert til að sækja um inngöngu í ESB enda vill bandalagið örugglega ekkert með okkur hafa eins og staðan er núna. 

Langtímaviðbrögð:  Ríkisstjórnarflokkarnir valda ekki sínu hlutverki (a.m.k. ekki Sjálfstæðisflokkurinn)og ekki Seðlabankinn heldur.  Meirihluti ráðherranna er óhæfur og það virðist einnig eiga við um stjórn seðlabankans.  Það þarf að halda kosningar sem fyrst eftir að mesta fárviðrið er gengið yfir og fá hæft fólk í ríkisstjórn og Seðlabankann. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að fara frá völdum þar sem ástandið í dag skrifast að stærstum hluta á hann.  Kerfið sem hann hefur átt stærstan hluta í að byggja og hugmyndafræðin á bak við það hafa beðið skipbrot.  Því þarf að fá nýtt fólk inn í stjórnmálin og nýjar hugmyndir, hugsanlega nýja flokka.  Allt stjórnkerfið og hagkerfið þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar.

Kerfið er ónýtt og það þarf að byggja upp nýtt.  Hið nýja verður að byggja á skynsemi og siðferðilegum gildum. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Starbuck

Höfundur

Starbuck
Starbuck
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband